Fréttir

Laus staða Nansen gestaprófessors

Háskólinn á Akureyri hefur auglýst eftir nýjum Nansen gestaprófessor við HA skólaárið 2017-2018. Staðan er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Almennt þurfa umsækjendur um stöðuna að hafa lokið doktorsgráðu (eða hafa sambærilega reynslu) og hafa traustan akademískan bakgrunn á sviði lagalegra málefna og sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Einnig er krafist reynslu af þverfaglegu starfi er lýtur að hinu flókna samspili mannlegs samfélags og umhverfisins og brýnt er að umsækjendur búi yfir góðri samskiptahæfni og félagslegri færni. Þá er reynsla af rannsóknastarfi varðandi málefni norðurslóða og af þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarteymum nauðsynleg, sem og skjalfest færni til að afla rannsóknarstyrkja.

IASC viðurkenning 2017

Árlega veitir IASC einstaklingi viðurkenningu fyrir framúrskarandi framlag til skilnings á norðurslóðum. Viðurkenningin verður veitt á ársfundi IASC (ASSW 2017) sem haldinn verður í Prag 31. mars – 7. apríl 2017. Óskað er eftir að tilnefningar berist á sérstöku eyðublaði til skrifstofu IASC í síðasta lagi 31. desember 2016. Sjá nánari upplýsingar á vefsetri IASC.