Farandsýning

thefriendlyarctic

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar stendur fyrir farandsýningu sem kallast Heimsskautslöndin unaðslegu og fjallar um Vilhjálm Stefánsson heimskautafara, mannlíf, menningu og náttúru á norðurslóðum. Sýningin gefur innsýn í líf og starf Vilhjálms, lífssýn hans og arfleifð sem landkönnuðar og mannfræðings, en er um leið kynning á þeim málefnum samtímans sem varða umhverfi, nýtingu auðlinda, sjálfbæra þróun og lífvænleika samfélaga á norðurskautsslóðum. Notaðar eru ritaðar heimildir, ljósmyndir, hljóðupptökur og kvikmyndir sem varðveittar hafa verið í Stefansson Collection í Dartmouth College og víðar. Þá má nefna útgefin verk Vilhjálms, dagbækur og fyrirlestra sem eftir hann liggja. Auk þessa eru listaverk og gripir tengdir aðlögun og menningu á norðurslóðum mikilvægur þáttur sýningarinnar. Sýningin er sett upp af stofnuninni og Visionis ehf. í Reykjavík, í samstarfi við Dartmouth College, New Hampshire, USA.

Sýningin var fyrst opnuð í Listasafninu á Akureyri 5. nóvember 2000 samfara fyrirlestri og málþingi til minningar um Vilhjálm og hefur síðan farið til Reykjavíkur, Gimli, Winnipeg, Iqaluit, Nunavut, Norwich í Vermont, New York, Kaupmannahafnar, Minneapolis, Honningsvåg, Santiago de Compostela, Muros, Nuuk og Qaqortoq.

Frá ársbyrjun 2017 hefur efni úr sýningunni (myndir og dagbókarbrot) verið að finna í Norðurslóðasetrinu á Akureyri.

Nafn Vestur-Íslendingsins Vilhjálms Stefánssonar er órofa tengt norðurskautsslóðum og könnun þeirra. Hann er þekktastur fyrir að hafa ferðast um heimskautasvæði Kanada í fimm ár óslitið (1913-1918) og stundað mannfræðirannsóknir og landkönnun, en alls dvaldi hann um 12 ár á þessum slóðum. Hann lærði tungumál og kynntist menningu Inúíta og tileinkaði sér lifnaðarhætti þeirra. Síðar varð hann kunnur sem boðberi þess að Evrópubúar gætu, líkt og Inúítar, lifað á heimskautaslóðum og nýtt sér gæði þeirra, að því tilskildu að þeir lærðu að umgangast náttúruöflin að hætti heimamanna. Á sínum tíma gerði Vilhjálmur Stefánsson meira en nokkur annar maður til þess að breyta ímynd norðurslóða, frá heljarslóðinni ömurlegu yfir í heimsskautslöndin unaðslegu með merkilegu mannlífi, menningu og gnótt náttúrugæða.


Grein eftir forstöðumann SVS, Níels Einarsson, birt í Morgunblaðinu í tilefni fyrstu opnunar farandsýningarinnar, 5. nóvember árið 2000 í Listasafninu á Akureyri.