ICEBERG - Innovative Community Engagement for Building Effective Resilience and Arctic Ocean Pollution-Control Governance in the context of Climate Change
Þverfagleg rannsókn á áhrifum loftslagsbreytinga, mengun og heilsu, og aðlögun samfélaga á norðurslóðum, sem styrkt er af Evrópusambandinu.
Númer styrks úr HORIZON Research and Innovation Action sjóði EU: 101135130
Tímabil verkefnis: 1. janúar, 2024, til 31. desember, 2026
ICEBERG (Nýskapandi leiðir með virkri þátttöku nærsamfélagsins til að auka viðnámsþrótt strandbyggða á norðurslóðum og efla mengunarvarnir sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum) er þverfaglegt rannsóknarverkefni sem miðar að því að gera heildstætt mat á uppruna, gerðum, dreifingu og samtengdum áhrifum mengunar og langvinnum streituvöldum af völdum loftslagsvár á vistkerfi og samfélög á tilteknum svæðum evrópskra norðurslóða. Verkefnið tekur til lands og hafs með því að beita þverfaglegri nálgun sem kennd er við „eina heilsu“ (One Health Approach) sem viðurkennir innbyrðis - og víxltengsl milli heilsu manna, dýra, plantna og vistkerfa. Markmið verkefnisins er að móta aðgerðaáætlanir til þess að efla viðnámsþrótt samfélaga og mengunarvarnir undir forystu heimafólks. Verkefnið beinist að þremur tilvikssvæðum: Vestur-Svalbarða, Suður-Grænlandi og Norðaustur-Íslandi.
ICEBERG rannsóknarverkefnið felur í sér náið þverfaglegt samstarf vísindamanna frá mörgum alþjóðlegum samstarfstofnunum auk þess sem beitt er lýðvísindum (þátttöku almennings í vísindastarfi) þar sem heimafólk og hagaðilar taka virkan þátt í þekkingarsköpun og hönnun lausna.
Rannsóknarteymið er leitt af Dr. Thora Herrmann (samræmingaraðili vísinda) og Dr. Élise Lépy (verkefnastjóri) við Háskólann í Oulu, Finnlandi.
Dr. Joan Nymand Larsen, vísindamaður og sviðsstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og prófessor í hagfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, leiðir vinnuna hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Með Joan starfa við grænlensku og íslensku rannsóknirnar Dr. Jón Haukur Ingimundarson, vísindamaður og sviðsstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og dósent í mannfræði við Háskólann á Akureyri; Þórný Barðadóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði og sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar; og Helga Guðrún Númadóttir, M.A. í heimskautarétti og sérfræðingur við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
Joan og Jón Haukur hafa áralanga reynslu af vettvangsrannsóknum bæði á vestur- og suðurstönd Grænlands. Þar hafa þau rannsakað félagslegan og efnahagslegan ójöfnuð, áhrif loftslagsbreytinga, aðlögunaraðferðir og þróunarvísa norðurslóða í nánu samstarfi við heimafólk sem tekið hefur virkan þátt í þekkingarsköpun. ICEBERG verkefnið gerir alþjóðlega og þverfaglega rannsóknarteyminu, í náinni samvinnu við nærsamfélagið, kleift að vinna áfram að þróun aðlögunaraðgerða og stefnu.
ICEBERG verkefnið fer fram á Suður-Grænlandi, Norðaustur-Íslandi og Svalbarða. Í því verða til rannsóknar margþætt og flókin áhrif mengunar, loftslagsbreytinga, mannvistar og atvinnustarfsemi á strendur og haf á norðurslóðum sem ógnað geta heilsu fólks og vistkerfa. Uppruni, gerð og dreifing mengunarefna verður ítarlega könnuð og kortlögð og samtengd áhrif mengunar af mannavöldum og loftslagsvár rannsökuð.
ICEBERG leggur áherslu á fjölhagsmuna – og kynjamiðaðar nálganir til þess að meta áhrif, áhættur og tjónnæmi frumbyggja – og nærsamfélaga. Lögð er áhersla á virka þátttöku íbúa svæðanna við þekkingarsköpun og hönnun sviðsmynda til breytinga. Sviðsmyndalíkön eru notuð til þess að þróa staðbundnar mengunarvarnir í nánu samstarfi við heimafólk og hagaðila.
Joan Nymand Larsen ásamt sérfræðingum frá Háskólanum í Oulu og fleirum mun leiða vinnu við áhættumat og koma að þróun staðbundinna aðgerðaáætlana til að auka viðnámsþrótt vistkerfa og samfélaga gegn mengun og loftslagstengdum þáttum. Rannsóknin felur einnig í sér öflun gagna sem endurspegla athuganir og tjá skilning heimafólks á áhrifum margskonar umhverfisvár gagnvart tjónnæmi og aðlögunargetu samfélags og innviða, heilbrigði vistkerfa og lýðheilsu sem og mannöryggi, lífsgæðum og velferð. Rannsóknarteymið samanstendur af þverfaglegum hópi sérfræðinga þar sem félags-, heilbrigðis og náttúruvísindafólk vinnur náið saman ásamt íbúum á hverjum stað.
Rannsakendur við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar:
Prófessor Joan Nymand Larsen
Dr. Jón Haukur Ingimundarson
Þórný Barðadóttir, M.A. og doktorsnemi
Helga Guðrún Númadóttir, M.A.
Aðilar að rannsóknarteyminu: 16 samstarfsstofnanir frá 9 löndum – Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Íslandi, Ítalíu, Póllandi, Portúgal, Spáni.
Fyrir frekari upplýsingar: Prófessor Joan Nymand Larsen jnl@unak.is
Kindur á vappi við fjallsrætur í Nanortalik