Styrkir til íslenskra og norskra nemenda í heimskautafræðum (23.01.2013)
Hinn 29. september 2011 var undirritað á Akureyri, af utanríkisráðherrum Íslands og Noregs, samkomulag til þriggja ára um samstarf á sviði heimskautarannsókna. Styrkir til skiptináms (nám, rannsóknir og starfsnám) handa íslenskum og norskum nemendum í heimskautafræðum eru eitt meginatriðanna í þessu samstarfi.
Styrkirnir eru fyrir kennsluárið 2012-2013 og nema 520 evrum á mánuði til uppihalds, auk ferðastyrks að hámarki 1200 evrur. Styrkur getur að lágmarki verið til eins mánaðar, en lengst til 12 mánaða.
Skilyrði til að geta hlotið styrk eru hin sömu og Nordplus-styrkjanna, sem veittir eru til náms eða vinnudvalar, að því viðbættu að doktorsnemar eiga nú möguleika á styrk. Forgangs njóta nemendur sem eru í meistara- eða doktorsnámi og nemendur sem hyggja á nám við norska eða íslenska háskóla sem eru aðilar að hinum fjölþjóðlega háskóla University of the Arctic.
Umsóknarferli
Nemendur skila inn umsóknum til alþjóðaskrifstofu síns heimaskóla. Þeim skulu fylgja eftirtalin gögn:
- Markmiðslýsing (500-1000 orð) þar sem lýst er vægi fyrirhugaðs náms eða vinnudvalar erlendis, á sviði heimskautafræða og -rannsókna.
- Skannað afrit af samþykktri námsáætlun, frá heimaskóla og helst einnig gestaskóla.
- Útskrift af einkunnum.
Umsóknarfrestur til 15. mars 2013, fyrir kennsluárið 2012-2013 (tekið er við umsóknum eftir að frestur er liðinn og fara þær á biðlista).
Frekari upplýsingar og umsóknareyðublað eru á: www.arcticstudies.is.
Rannís annast fjárhagslega umsjón ofangreindra styrkja. The Norwegian Centre for International Cooperation in Education (SIU) annast umsjón af Noregs hálfu.