Forstöðumenn stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins undirrituðu í dag yfirlýsingu um að setja loftslagsmarkmið fyrir stofnanirnar. Munu markmiðin miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og að starfsemi stofnananna verði kolefnishlutlaus.
Alls eru stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 15 talsins en yfirlýsing þeirra er í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum og stefnu ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi samkvæmt stjórnarsáttmála.
Í yfirlýsingunni kemur fram að stofnanirnar muni kortleggja losun frá starfsemi sinni, setja markmið um samdrátt í losun og birta árlega skýrslu um framgang og árangur. Notast verður við samræmt skráningarkerfi til að tryggja samræmi og samanburðarhæfni gagna.
Í fyrstu verður lögð áhersla á að draga úr losun frá samgöngum og úrgangi. Loftslagsmarkmið skulu liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2018 en markmiðin verða endurskoðuð árlega.
Sjá vefsíðu Stjórnarráðsins.