Ljósmyndasýning Maribel Longueira (30.04.2014)
Ljósmyndasýning spænsk-galisísku listakonunnar Maribel Longueira, Mengun í lífkerfi sjávar – Verur í viðjum, verður opnuð föstudaginn 2. maí kl. 16:00 á Háskólatorgi Háskóla Íslands (sjá frétt) og á Bókasafni Háskólans á Akureyri fimmtudaginn 8. maí kl. 16:00.
Sýningin samanstendur af 21 ljósmynd og beinir augum að mengun sjávar og hvernig það vaxandi vandamál birtist í formi sjóreka rusls sem finna má á ströndum landa. Í sýningunni ljær listakonan viðfangsefninu ákveðið mannlegt yfirbragð og form þannig að ruslið horfist í bókstaflegri merkingu í augu við þann sem skoðar myndina. Sýningin inniheldur öflugan boðskap sem er settur fram á frumlegan og áhrifamikinn hátt og hvetur þannig til umhugsunar um samband okkar við hafið og ábyrga umgengni við það. Listakonan kemur frá Galisíu á norðvestanverðum Spáni, en þar eru fiskveiðar undirstaða samfélagslegrar velferðar, atvinnulífs og menningar. Þar er fólk, ekki síst eftir hið gríðarlega Prestige mengunarslys árið 2002, vel meðvitað um mikilvægi þess að spornað sé gegn mengun í lífkerfi sjávar, bæði heima og hnattrænt.
Eiginmaður Maribel er galisíska skáldið Francisco X. Fernández Naval og verður hann með listakonunni í för. Við opnun sýninganna mun hann flytja nokkur ljóð sem tengjast efni sýningarinnar og í Reykjavík mun einnig taka þátt íslensk-galisíska skáldið Elías Knörr.
Að sýningunni standa Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í samstarfi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Bókasafn Háskólans á Akureyri. Sýningin nýtur styrks frá Þróunarsjóði EFTA EEA.
Sýningin verður opin í þrjár vikur á Háskólatorgi og en fram eftir sumri á Bókasafni Háskólans á Akureyri. Sýningin er öllum opin.