Fyrirlestur í HA sunnudaginn 30. mars: Landnám norrænna manna á Vínlandi
Hinn þekkti kanadíski sérfræðingur í fornleifarannsóknum Birgitta Wallace heldur erindi í Háskólanum á Akureyri, sunnudaginn 30. mars kl. 14:00. Fyrirlesturinn er á ensku og fer fram í stofu M 102 á Sólborg. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Birgitta kemur hingað til lands á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga. Hún mun halda fjóra fyrirlestra um rannsóknir sínar, þ. á m. í Þjóðminjasafni Íslands, Háskólanum á Hólum og í Háskólanum á Akureyri.
Birgitta fjallar um heimildir fyrir landafundum og landnámi norrænna manna á Vínlandi fyrir rúmlega þúsund árum og ferðalög þeirra um austurströnd Norður-Ameríku. Hún starfaði með Helge Ingstad að uppgreftri sem fram fór í L‘Anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands um og eftir 1960. Þar fundust fyrstu áþreifanlegu minjarnar um búsetu víkinga í Vesturheimi. Birgitta stjórnaði uppgreftri sem fór fram í L‘ Anse Aux Meadows á áttunda áratugnum á vegum Parks Canada og hefur hún birt niðurstöður víðtækra rannsókna sinna á norrænu landnámi vestanhafs. Birgitta stjórnaði einnig uppbyggingu Víkingasafnsins þar. Birgitta Wallace hefur sett fram rökstuðning fyrir staðsetningu ýmissa staðaheita sem koma fram í Eiríkssögu rauða og Grænlendingabók. Þannig telur hún að Straumfjörður, Leifsbúðir og L‘Anse aux Meadows sé einn og sami staðurinn. Ennfremur að Helluland og Markland séu Baffinseyjar og Labrador.