Sífrerarannsóknir í Ilulissat

Sleðahundar í Ilulissat
Sleðahundar í Ilulissat

27. október síðastliðinn héldu Joan Nymand Larsen og Helga Númadóttir hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar af stað í rannsóknarferð til hins fallega bæjar Ilulissat í Diskó-flóa á Vestur-Grænlandi, þar sem þær hittu fyrir rannsóknarfélaga sína í ILLUQ-verkefninu .

ILLUQ er þverfaglegt sífrerarannsóknarverkefni sem fjármagnað er af EU Horizon rannsóknarsjóði Evrópusambandsins (2024-2027) og leitt af Alfred Wegener Institute for Polar and Marine Research.

Verkefnið nálgast þá áhættu sem stafar af losun mengunarefna, hnignun innviða og breytingu vistkerfa vegna sífreraþiðnunar á heildrænan hátt og frá sjónarhorni „einnar heilsu“ nálgunarinnar. Ilulissat er eitt af þremur rannsóknarsvæðum þar sem vettvangsvinna fer fram, ásamt Svalbarða og Mackenzie River Delta svæðinu í Kanada.

Lykilþáttur í ILLUQ-verkefninu er áhersla á nána samvinnu og samráð við heimafólk og hagaðila nærsamfélagsins, sem býr yfir ríkulegri staðbundinni þekkingu og þekkingu frumbyggja. Verkefnið byggir jafnframt á NUNATARYUK rannsóknarverkefninu (2017-2023), sem sömuleiðis beindi sjónum sínum að þiðnun sífrera í Ilulissat, og hagnýtir þekkingu og tengslanet sem þónokkrir af rannsakendunum verkefnisins búa þegar yfir.

Á meðan á dvölinni í Ilulissat stóð könnuðu rannsakendur vettvanginn, tóku fyrstu sýnin og höfðu víðtækt samráð við heimafólk til þess að skilgreina og bera kennsl á helstu áhyggjuefni, þarfir og forgangsatriði er varða þiðnun sífrera á svæðinu. Samráðið fól meðal annars í sér að halda opinn fund fyrir almenning í ráðhúsi bæjarins og samtöl við hagaðila úr ýmsum greinum, einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum, þ.á.m. skólum og ólíkum sviðum sveitafélagsins Avannaata.

Þiðnun sífrera vegna loftslagsbreytinga hefur þegar víðtæk og margþætt áhrif í Ilulissat. Í þessari fyrstu rannsóknarferð ILLUQ-verkefnisins var lagður sterkur grunnur fyrir áframhaldandi samstarf milli rannsakenda og heimafólks og samnýtingu gagna og þekkingar. Hvarvetna var rannsóknarteyminu sýndur áhugi og hlýja sem var grundvallarforsenda fyrir árangursríkri upphafsviku vettvangsvinnu í Ilulissat.

Joan og Helga í siglingu í Diskó-flóa

Kangiata Illorsua - The Icefjord Centre í Ilulissat

Diskó-flói

Fyrir frekari upplýsingar, heimsækið okkur hér:

ILLUQ - Home

Facebook

Instagram