Joan með Disko-flóa í baksýn
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í tveimur alþjóðlegum vettvangsmiðuðum rannsóknarverkefnum um mengun og loftslagsbreytingar á norðurslóðum með áherslu á að auka innsýn í samfélagsleg áhrif og áskoranir tengdar umhverfisbreytingum.
Joan Nymand Larsen, vísindamaður og sviðstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar (SVS) og prófessor við Félagsvísindadeild HA hefur aflað styrkja til fjögurra ára fyrir þátttöku í tveimur nýjum verkefnum fjármögnuðum af rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins. Þau eru annarsvegar ILLUQ – Sífreri - Mengun - Heilsa (ILLUQ - Permafrost - Pollution - Health) sem Alfred Wegener Institute leiðir og hins vegar ICEBERG, sem miðar að því að auka viðnámsþrótt strandbyggða á norðurslóðum og efla mengunarvarnir sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, með virkri þátttöku nærsamfélagsins (Innovative Community Engagement for Building Effective Resilience and Arctic Ocean Pollution-Control Governance in the context of Climate Change) sem leitt er af Háskólanum í Oulu.
Markmið verkefnanna eru meðal annars að rannsaka áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga og mengunar og efla staðbundnar aðlögunaraðgerðir í strandsamfélögum á Suður- og Vestur-Grænlandi, Norðaustur Íslandi, Svalbarða og í Norðurvestur-Kanada. Rannsóknirnar fela í sér náið þverfaglegt samstarf vísindamanna frá mörgum alþjóðlegum samstarfsstofnunum auk þess að notast við lýðvísindi (þátttöku almennings í vísindastarfi) þar sem heimafólk og hagaðilar taka virkan þátt í þekkingarsköpun og hönnun lausna. Heildarfjárhæð sem úthlutað verður úr EU HORIZON Research and Innovation Actions fyrir vinnu leidda af Joan við SVS er 686.000 Evrur (8.851.380 kr.), þar af 45.648.680 krónur fyrir ILLUQ og 41.202.380 krónur fyrir ICEBERG. Heildarstyrkupphæðir fyrir ILLUQ og ICEBERG nema um 6 milljónum evra fyrir hvort verkefni um sig.
Jón Haukur Ingimundarson, vísindamaður og sviðstjóri hjá SVS og dósent við HA mun starfa með Joan ásamt starfsliði sem mun fara stækkandi þegar vettvangsvinna hefst síðar á þessu ári. Joan og Jón Haukur hafa áralanga reynslu af vettvangsrannsóknum bæði á vestur- og suðurstönd Grænlands. Við Diskóflóa hafa þau unnið náið með heimafólki við rannsóknir er varða áhrif loftslagsbreytinga, aðlögunaraðgerðir og þróunarvísa norðurslóða (Arctic Social Indicators) í tengslum við verkefnið NUNATARYUK sem styrkt var af HORIZON 2020 sjóði Evrópusambandsins og lauk nýlega (sjá https://nunataryuk.org/). ILLUQ og ICEBERG verkefnin munu gera Joan, Jóni Hauki og samstarfsaðilum kleift að halda áfram og taka mikilvæg skref í þróun aðlögunaraðgerða og stefnu í nánu samstarfi við heimafólk.
Í ILLUQ verkefninu munu Joan og samstarfsfélagar vinna með heimafólki sem býr yfir ríkulegri staðbundinni þekkingu við að kanna með heildrænum hætti efnisleg, heilsufarsleg, félagsleg og innviðatengd áhrif sífreraþiðnunar á samfélög á norðurslóðum sem og aðlögunar- og mótvægisaðgerðir fortíðar, nútíðar og framtíðar. Vettvangsrannsóknir mun fara fram í Ilulissat og Sisimiut á Grænlandi, Longyearbyen á Svalbarða og nokkrum byggðum á Mackenzie River Delta svæðinu í Kanada. Einnig mun Joan taka þátt í að leiða vinnu sem stuðlar að gerð verklags- og aðgerðaáætlana svo taka megi upplýstar ákvarðanir og finna árangursríkar leiðir fyrir samfélög að takast á við og aðlagast áhrifum og breytingum vegna sífreraþiðnunar.
ICEBERG verkefnið fer fram á Suður-Grænlandi, Norðaustur-Íslandi og Svalbarða. Þar verða tekin fyrir margþætt og flókin áhrif mengunar, loftslagsbreytinga, mannvistar og atvinnustarfsemi á strendur og sjó og ógnir fyrir heilsu fólks og vistkerfa. Uppruni, gerð og dreifing mengunarefna verða ítarlega könnuð og kortlögð og samtengd áhrif mengunar af mannavöldum og loftslagsvár rannsökuð. Mun Joan þar að auki ásamt sérfræðingum frá Háskólanum í Oulu og fleirum leiða vinnu við áhættumat og koma að hönnun staðbundinna aðgerðaáætlana til að auka viðnámsþrótt (resilience) samfélaga og vistkerfa gegn slíkum áskorunum. Rannsóknirnar fela einnig í sér öflun gagna sem endurspegla athuganir og tjá skilning heimafólks á áhrifum margskonar umhverfisvár gagnvart tjónnæmi (vulnerability) og aðlögunargetu samfélags og innviða, heilbrigði vistkerfa og lýðheilsu sem og mannöryggi (human security), lífsgæðum og velferð.
Rannsóknateymin samanstanda af þverfaglegum hópum sérfræðinga þar sem félags-, heilbrigðis og náttúruvísindafólk vinnur náið saman ásamt íbúum á hverjum stað.
ILLUQ: 1. janúar 2024 til 31. desember 2027
ICEBERG : 1. janúar 2024 og stendur til 31. desember 2026
Fyrir frekari upplýsingar: Joan Nymand Larsen jnl@unak.is